Mynd af VR

VR

Um VR

VR var stofnað 1891 af launþegum og atvinnurekendum í verslunarstétt sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og varð hreint launþegafélag 28. febrúar 1955. Nafni félagsins var breytt í VR á aðalfundi 26. apríl 2006. Tilgangur félagsins er að vinna að bættum kjörum og auknum réttindum félagsmanna. Kjaramálaráðgjöf, sjúkradagpeningar, styrkir og orlofshús eru stærstu þjónustuþættir stéttarfélagsins auk þjónustu við atvinnuleitendur og félagsmenn í starfsendurhæfingu. Formaður VR er Ragnar Þór Ingólfsson.


Jafnlaunavottun

VR hefur verið í fararbroddi í baráttunni fyrir jöfnum launum karla og kvenna. Þegar Staðlaráð Íslands gaf út Jafnlaunastaðal ÍST 85:2012 í desember árið 2012 ákvað VR því að ríða á vaðið og hleypa strax af stokkunum Jafnlaunavottun VR sem byggði á og uppfyllti staðalinn. Á þeim tíma var ekki í sjónmáli að nokkur annar aðili gæti brugðist svo skjótt við en félagið taldi nauðsynlegt að útkomu staðalsins yrði tafarlaust fylgt eftir með vottunarferli. Nú þegar opinbert ferli er komið á jafnlaunavottun hefur VR hætt útgáfu Jafnlaunavottunar VR en 29 fyrirtæki þar sem starfa tæplega sex þúsund starfsmenn vinna hjá fyrirtækjum sem hafa fengið Jafnlaunavottun VR.

Eineltisferli

Hjá VR starfar sérstakt teymi sem tekur á eineltismálum ef grunur um slíkt vaknar á vinnustað félagsmanns.

Erlent vinnuafl

VR hefur staðið vörð um réttindi erlends vinnuafls með það að leiðarljósi að tryggja að útlendingar sem starfa á íslenskum vinnumarkaði njóti kjara og annarra réttinda í samræmi við kjarasamninga og lög.

Umhverfisstefna

VR hefur markað sér stefnu í umhverfismálum. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) er útlitið í sambandi við flesta álagsþætti sem hafa áhrif á náttúruna síður en svo uppörvandi. Þess vegna teljum við hjá VR mikilvægt að flokka og endurnýta eins mikið af rusli og við getum, því margt smátt gerir eitt stórt.

Samgöngustyrkir

VR leggur sitt af mörkum til að draga úr auknum vanda vegna umferðarþunga í þéttbýli. VR hvetur starfsfólk félagsins til að nýta sér aðra valkosti en einkabílinn til og frá vinnu og býður starfsmönnum samgöngusamning. Með þessu sýnum við samfélagslega ábyrgð, stuðlum að betra umhverfi og eflum lýðheilsu.

Styrkir til samfélagsmála

VR ráðstafar ár hvert ákveðinni fjárhæð til góðgerðarmála, þar á meðal til hjálparsamtaka sem hafa það að leiðarljósi að aðstoða þá sem helst þurfa á stuðningi að halda yfir jólahátíðina.

VR-Skóli lífsins

VR-Skóli lífsins byggir fyrst og fremst á netnámi og er sérstaklega ætlaður 16 - 24 ára ungmennum, óháð stéttarfélagsaðild. VR-Skóli lífsins fjallar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði með nýrri og skemmtilegri nálgun. Þátttakendur skrá sig til þátttöku og fylgjast með lífi ungrar stúlku taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Hjá VR verðum við vör við fjölgun þeirra fyrirtækja og skóla sem stuðla að þátttöku sinna ungmenna enda mikilvægt samfélagsverkefni sem varðar okkur öll.

Employees

Ragnar Þór Ingólfsson

Formaður
c