Mynd af Rafveita Reyðarfjarðar

Rafveita Reyðarfjarðar

RAFVEITA REYÐARFJARÐAR

Rafveita Reyðarfjarðar
Hafnargötu 2, 730 Reyðarfirði
sími 470 9000

Úr reglugerð:
"Rafveita Reyðarfjarðar er fyrirtæki, sem hreppsnefnd Reyðarfjarðar starfrækir í þeim tilgangi, að veita raforku um hreppinn og selja hana til heimilisnotkunar, iðnaðar og annarra þarfa. Rafveitan er eign Reyðarfjarðarhrepps, en skal rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með nafninu Rafveita Reyðarfjarðar, og hafa sérstakt reikningshald.
[...] Rafveita Reyðarfjarðar aflar raforku til almenningsþarfa í Reyðarfjarðarhreppi með því að kaupa raforku frá öðrum, eða vinna hana sjálf, og veitir þeirri orku, sem þannig er keypt eða unnin, um orkuveitukerfi rafveitunnar.
Orkuveitusvæði rafveitunnar er lögsagnarumdæmi Reyðarfjarðarhrepps og sá hluti nágrennis hreppsins, sem hreppsstjórn ákveður og ráðherra samþykkir. Rafveita Reyðarfjarðar hefur einkarétt til sölu á raforku beint til raforkunotenda á orkuveitusvæði sínu."

Saga Rafveitu Reyðarfjarðar

Hinn 1. apríl árið 1930 verður ætíð talinn mikill hátíðisdagur í sögu Reyðarfjarðar og í lífi íbúanna þar. Þann dag voru vélar rafstöðvarinnar ræstar í fyrsta sinn og straumi hleypt á kauptúnið innan Búðarár. Gamansamur náungi kvað þá þessa vísu:

Apríl fyrsti á sitt hrós
Árin þegar líða.
Höfðingjarnir hafa ljós,
hinir mega bíða!

En til gamans má geta þess, að Þorsteinn Jónsson, kaupfélagsstjóri, átti heima innan ár eða nánar tiltekið í Hermes.
En biðin varð ekki löng og örfáum dögum síðar var straumi hleypt á ytri hlutann og við það varð ljós um allan bæ!
Virkjun Búðarár var stórvirki síns tíma, ekki síst þegar haft er í huga, að atvinna var ótrygg og fátækt mikil og almenn. Sveitarstjórnin hafði í mörg horn að líta. Eigi að síður var hafist handa og ríkti mikill áhugi meðal þorpsbúa um framgang málsins.

Árið 1929, hinn 12. janúar, var haldinn fjölmennur borgarafundur um málið. Fyrir fundinum lá áætlun, um rafvæðingu Búðarár, frá Sigurði Vigfússyni. "Hann telur ána skila 300 hestöflum og kostnað við að virkja 200 hestöfl kr. 80.000", eins og segir í fundargerðinni. Mikill áhugi og eindrægni ríkti á fundinum. Var skorað á hreppsnefnd að fylgja málinu eftir og tók hún það fyrir á fundi aðeins fjórum dögum síðar. Orðrétt segir í fundargerð hreppsnefndar: "Fundurinn felur Þorsteini Jónssyni, sem er að fara til Reykjavíkur, að útvega áætlanir og mælingar og tilboð fyrir 200 hestafla rafstöð við Búðará og að leitast fyrir um að undirbúa lántöku til fyrirtækisins eftir föngum."
Hér var teningnum kastað og ekki aftur snúið. Nú gerðist margt á stuttum tíma. Annar borgarafundur var haldinn um málið 1. júní 1929. Nefnd sem starfað hafði á milli funda, skilaði skýrslu um málið og greindi Þorsteinn Jónsson frá framgangi þess. Fundurinn heimilaði hreppsnefnd að taka lán "til virkjunar Búðarár allt að kr. 90.000 til 20-30 ára." Fundinn sátu 79 og greiddu allir atkvæði með heimildinni nema 2! Tæpum tveimur mánuðum síðar eða 21. júlí barst hreppsnefnd skeyti frá Líftryggingafélaginu Thule: "Lán fæst gegn ábyrgð ríkisins og sýslusjóðs." Hvort tveggja gekk eftir. Hófst nú undirbúningur af fullum krafti. Áætlanir og útreikningar um allan stofnkostnað annaðis Steingrímur Jónsson, rafmagnsstjóri í Reykjavík og í framhaldi af því var verkið boðið út.
Hagkvæmasta tilboðið kom frá Rafmagni hf. í Reykjavík. Hljóðaði það upp á kr. 96.000.00 með því skilyrði, að hreppurinn annaðist flutning á öllu efni að stíflu og gröft fyrir pípum og stöðvarhúsi. Fyrirtækið hófst þegar handa og pantaði vélar og annað, sem til þurfti. Raffræðingurinn, Höskuldur Baldvinsson frá Reykjavík, kom svo í ágústmánuði og sá um allar framkvæmdir. Þorpsbúar tóku nú höndum saman, ruddu bílfæran veg upp að stíflu og grófu fyrir stöðvarhúsi og þrýstvatnspípu allt í sjálfboðavinnu. Sýnir þetta vel áhuga og samheldni Reyðfirðinga í þessu mikla framfaramáli. Síðar um sumarið fékkst svo lánið með áðurnefndum skilyrðum. Rekstur skyldu notendur greiða með ábyrgð hreppsins, ef menn stæðu ekki í skilum. Hreppsnefnd ákvað á fundi sínum 12. September, að tilhlutan rafnefndar, að útvega kr. 10.000.00 lán "til að gera þorpsbúum kleift að komast yfir innlagningartæki", eins og segir í fundargerð. Hér er átt við búnað heimilanna, svo sem ofna, eldavélar, lampa o.fl. Allt var þetta komið í tæka tíð fyrir tímamótadaginn 1. apríl 1930. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í aðdraganda, undirbúningi og stofnun Rafveitu Reyðarfjarðar. Margir muna enn þessa tíma og þá gífurlegu breytingu, sem rafvæðingin og rafljósin höfðu í för með sér, bæði fyrir atvinnulíf og heimili þorpsbúa. Hér var um byltingu að ræða og áhrif hennar einskorðuðust ekki við heimabyggðina eina. Séra Emil Björnsson minnist þess í ævisögu sinn, þegar hann kom ungur sveinn til Reyðarfjarðar sunnan úr Breiðdal til stuttrar dvalar í janúar 1931.Orðrétt segir hann: "Raunar mátti flest heita nýtt. Þarna voru rafljós, bæði úti og inni, akvegir og bílar, fjölmenni og félagslíf."
"Þessi Reyðarfjarðardvöl leysti eitthvað úr læðingi í mér." Sögumaður var aðeins 16 ára og áhrif ljósadýrðarinnar voru slík, að tæpum 60 árum síðar minnist hann hennar eins og atburðirnir hefðu gerst í gær. Svo er um fleiri. Bjartsýni fólksins jókst og atvinnulífið varð smátt og smátt fjölbreyttara. Með tilkomu rafmagnsins og rafvæðingarinnar um land allt siglir þjóðin hraðbyri inn í nýja tíma þeirrar atvinnu- og efnahagsbyltingar, sem enn er hvergi nærri lokið. Rafveita Reyðarfjarðar var traustur hlekkur í þeirri þróunarkeðju. Árið 1927 reisti Kaupfélag Héraðsbúa sláturhús og raflýsti öll hús sín frá ljósavélasamstæðu í vélasal þess. Fljótlega kom í ljós, að meira rafmagn þurfti til starfsemi kaupfélagsins. Kannaðir voru möguleikar á virkjun Búðarár eingöngu fyrir starfsemi kaupfélagsins, en góðu heilli þróuðust málin í þá veru, sem lýst hefur verið hér að framan. Stífla var byggð ofan við Búðarárfossinn og var hæðin 5.5 m í miðjum árfarvegi. Þrýstivatnspípan (rafmagnsrörin eins og þau voru nefnd) er 1100 m á lengd, efri hlutinn 45 cm víður, en sá neðri 40 cm. Og var hún sett saman með lausum krögum og þétt með gúmmíhringjum, grafin niður eða hulin jörðu. Rafstöðvarhúsið var byggt úr steinsteypu, 5.5 x 18.8 m að grunnfleti. Það var hannað með stækkun í huga síðar og vídd þrýstvatnpípunnar var einnig miðuð við hugsanlega stækkun rafveitunnar. Þessi framsýni frumherjanna borgaði sig fljótt. Með vaxandi fólksfjölda, fjölbreyttu atvinnulífi, og ekki hvað síst, vegna dvalar hernámsliðsins hér á stríðsárunum kom stækkunarþörfin fljótt í ljós. Árið 1940 er keypt og sett upp ný vélasamstæða. Rafallinn var sænskur, en hverfillinn (túrbínan) íslensk smíð. Var hann af pelton gerð og smíðaður í vélsmiðjunni Steðja í Reykjavík. Ráðgjafi rafveitunnar við þessa fyrstu stækkun stöðvarinnar var Höskuldur Baldvinsson, sem stjórnaði framkvæmdunum 1929 með prýði. En þetta dugði skammt. Álagið og þörfin jókst ár frá ári. Strax árið 1942 er farið að huga að endurnýjun og endurbyggingu rafveitunnar og breytingu í riðstraum. En viðskipti öll við útlönd á stríðsárunum voru mörgum erfiðleikum háð. Það var ekki fyrr en í stríðslok eða í október 1945, sem hægt er að hefjast handa. Þá veitir hreppsnefnd þáverandi stöðvarstjóra, Frímanni Jónssyni, fullt umboð til að undirbúa pöntun á nýjum vélum og búnaði til endurnýjunar á Rafveitu Reyðarfjarðar. Það kom svo í hlut Benjamíns Jónssonar, sem tók við embætti rafveitustjóra þetta sama ár, að lafgæra og endurnýja lagnir í húsum og leggja nýjar vegna þeirra breytinga, sem fylgdi í kjölfar riðstraumsins.

Fólk sá nú hilla undir ísskápa, þvottavélar og jafnvel rafhitun húsa, þótt í litlu væri fyrst í stað. Þá þurfti að endurnýja loftlínur og breyta þeim eldri, einnig heimtaugum og inntökum í hús.
Háspennustrengur var grafinn í jörð og lagður frá rafstöð að spennistöð á Óstúni. Völdust til þess nokkrir valinkunnir Reyðfirðingar og tóku þeir verkið að sér í ákvæðisvinnu, þ.e. sömdu um ákveðið gjald fyrir hvern grafinn metra. En ekki er allt sem sýnist. Ekki hafði lengi verið grafið, þegar sýnt þótti, að hér var erfiðara og mun seinlegra verk á ferðinni en gert var ráð fyrir og launin í samræmi við það. Verktakar fóru því fram á hækkun gjaldsins, en rafnefnd hafnaði því og vitnaði í samninginn undirskrifaðan og vottfestan. Þessu vildu "grafarar" ekki una og hugsuðu nú ráð sitt. Tveim dögum síðar tilkynntu þeir vinnuveitanda sínum, að verkið yrði stövað án tafar nema til kæmi launahækkun! Um kvöldið voru verktakar boðaðir á fund formanns rafnefndar með það í huga að ná samkomulagi í deilunni. Fór fundurinn fram á Oddatúni. Voru málin rædd fram og aftur og þar kom, að "grafarar" töldu sig ná fram meginkröfum sínum, mættu glaðir til vinnu snemma morguninn eftir, grófu allt hvað af tók, lögðu strenginn í skurðinn, mokuðu yfir og voru hinir ánægðustu. Ónefndur heimildarmaður minn telur þennan atburð allsögulegan í tvennum skilningi. Ef til vill sé þetta fyrsta verkfall, sem gert er á Reyðarfirði, en hitt sé þó enn merkilegra, og megi að öllum líkindum telja til einsdæma, að kjarasamningur sé gerður úti á miðju túni og það að kvöldlagi án þess að nokkur viðstaddra hafi haft svo mikið sem penna eða blýant í vasanum, hvað þá blað til að skrifa á !

Margir Reyðfirðingar muna vel sumarið 1948, en þá var þorpið rafmagnslaust, þar eð verið var að taka gömlu vélaranar niður og setja hinar nýju upp. Á slíkum tímum getur ýmislegt gerst, sem lífgar upp á tilveruna. Eitt sinn hringdi þorpsbúi nokkur í Benjamín rafveitustjóra og spurði með undrun í röddinni: "Hvurnig í helvítinu stendur á því, Benjamín, að ein hellan á eldavélinni hitnar og á ekki allt að vera rafmagnslaust?" Rafveitustjórinn spurði á móti af sinni alkunnu hógværð: "Getur ekki verið, að heitur pottur hafi verið látinn á helluna?" Hann bað Benjamín að bíða í símanum meðan málið yrði rannsakað. Að vörmu spori kom vinurinn aftur og fannst mikið til um skarpskyggni viðmælanda síns. Frúin hafði nefnilega tekið heitan pott af olíuvél, látið hann frá sér á helluna, en var nýbúin að taka hann aftur, þegar bóndi hennar kom inn í eldhús!

Árið 1958 tengist rafveitan samveitukerfi Rarik (Grímsárvirkjun) og hefur keypt viðbótarrafmagn þaðan eftir þörfum. Hins vegar er hún eina rafveitan á Austurlandi, sem ekki hefur verið sett undir rekstur Rafmagnsveitna ríkisins. Hin síðari ár hefur verið unnið mikið uppbyggingarstarf á vegum rafveitunnar. Árið 1965 er byrjað að endurnýja kerfið með jarðstrengjalögn og með því að breyta spennu úr 220 volt í 3x380 volt. Var þessu verki að mestu lokið, þegar gífurleg verðhækkun varð á olíumarkaði, sem leiddi til hagstæðrar semkeppnisaðstöðu rafmagns til upphitunar húsa árið 1973. Til þess að mæta þessum nýju viðhorfum þurfti enn að endurbyggja kerfið og auka styrkleika þess á alla lund. Árið 1972 átti Austurlandsveita í erfiðleikum með öflun orku og flutning hennar, truflanir voru tíðar og oft kom til rafmagnsskömmtunar. Rafveitan keypti þá vél af gerðinni Caterpilla 313 hestöfl á kr. 100.000. Vél þessi kom að góðu gagni næstu árin, einkum á veturna, ásamt eldri dísilvél stöðvarinnar. Vélgæslumaður á þessum tíma var Elís Árnason ásamt rafveitustjóra. En þetta lagaðist allt með tilkomu Lagarfossvirkjunar 4. mars 1975.

Í lok þessa stutta yfirlits um sögu rafveitunnar er ekki úr vegi að minnast með virðingu og þökk þeirra manna, sem unnið hafa við hana í gegnum tíðina. Margvíslegir erfiðleikar urðu á vegi þeirra, einkum fyrstu áratugina. Þegar frost voru mikil og krapamyndun í ánni fraus oft í járnristum stíflunnar. Dró þá úr vatnsrennsli og þar með afköstum vélanna. Þurftu starfsmenn þá oft að fara upp að stíflu til að brjóta klakann úr ristunum, dvelja tímunum saman í hvernig veðri sem var, nætur jafnt sem daga. Af þessum ástæðum og einnig vegna þess, að handstýra þurfti lengi vel búnaði vélanna eftir álagi og aðstæðum hverju sinni var strax árið 1941 tekin upp gæsla á rafstöðinni allan sólarhringinn. Önnuðust hana, auk rafveitustjóranna, margir gamlir og góðir Reyðfirðingar.

Má þar nefna Ásgeir Árnason, Ágúst Guðjónsson, Eðvald Sigurjónsson, Elís Árnason, Ferdínand Magnússon, Jóel Friðriksson, Karl Björnsson og Pétur Jóhannsson. Rafveitustjórar frá stofnun Rafveitunnar hafa verið eftirtaldir: Guðmundur Einarsson 1930-1933, Frímann Jónsson 1933-1945, Benjamín Jónsson 1945-1950, Finnur Malmquist 1950-1960, Tryggvi Þórhallsson 1961-1966 og Sigfús Guðlaugsson frá 1967. Starfræksla Rafveitu Reyðarfjarðar hefur markað djúp spor í atvinnu- og menningarlífi staðarins síðustu sjötíu ár og hefði þróun hans orðið að líkindum allt önnur og hægari, ef hennar hefði ekki notið við. Hún kom svo sannarlega á réttum tíma. Heiður og þökk sé frumherjunum, sem af fádæma stórhug og bjartsýni á tímum kreppu og atvinnuleysis báru þetta mikla framfarmál fram til sigurs.

Starfsmenn

Sigfús Guðlaugsson

Rafveitustjóri
c