Starfsgreinasamband Íslands
Starfsgreinasamband Íslands (SGS) var stofnað 13. október árið 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, sem stofnað var árið 1964, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, sem stofnað var árið 1972 og Landssambands iðnverkafólks frá 1973. Stofnfélög Starfsgreinasambandsins voru 50 að tölu en í dag eru aðildarfélögin 18 talsins.
Starfsgreinasambandið er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta sambandið innan ASÍ, með samtals um 44.000 félagsmenn.
Meginhlutverk Starfsgreinasambandsins er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum og standa vörð um áunnin réttindi og vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.
Innra skipulag SGS tekur til þess:
- Að vinna að því að allt almennt verkafólk sé skipulagt og félagsbundið í virkum verkalýðsfélögum og að sameina öll verkalýðsfélög innan sinna vébanda til sóknar og varnar fyrir sameiginlegum málefnum þeirra.
- Að styðja, styrkja og þjónusta sambandsfélögin í starfi þeirra að hagsmunum verkafólks, svo sem í vinnudeilum og í samningum við atvinnurekendur, svo og að beita sér fyrir samræmingu í starfi og samræmdum reglum og gagnkvæmum stuðningi þeirra á milli.
- Að beita sér fyrir því, að sambandsfélög séu sem öflugastar félagsheildir og að félög séu ekki smærri en svo, að þau geti veitt félögum sinum alla nauðsynlega þjónustu.
- Að samræma grundvallarstefnu aðildarfélaga sinna í kjarasamningum og standa að gerð kjarasamninga um þau sameiginlegu mál sem aðildarfélögin fela því hverju sinni.
- Að veita sambandsfélögum og trúnaðarmönnum þeirra hverskonar upplýsingar, sem þeim megi verða til gagns eða leiðbeiningar í starfi.
- Að beita sér fyrir aukinni starfsmenntun, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, almennri upplýsinga og menningarstarfsemi, m.a. með virku samstarfi við önnur stéttarfélög og sambönd þeirra.
- Að koma fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna í þeim málum sem þau verða ásátt um að fela því.