Dögun er sjávarútvegsfyrirtæki með aðsetur á Sauðárkróki. Félagið var stofnað árið 1983 og hefur verið starfandi síðan. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í veiðum og vinnslu á rækju. Rækjuverksmiðja félagsins tók til starfa snemma árs 1984 og var þá að mestu unnin innfjarðarrækja úr Skagafirðinum. Verksmiðja félagsins hefur verið endurbætt og stækkuð reglulega og er nú ein fullkomnasta rækjuverksmiðja á Íslandi. Á árinu 2013 var m.a. settur upp nýr miðlægur sjóðari, sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi.
Í eðlilegu árferði þá eru framleiddar afurðir úr 6000 til 7000 tonnum af hráefni. Að jafnaði starfa 25 til 30 starfsmenn hjá félaginu.
Stöðugt minnkandi rækjuveiði við Íslandsstrendur eftir aldamótin leiddi til þess að fyrirtækið lagði meiri áherslu á vinnslu iðnaðarrækju af frystiskipum á Flæmingjagrunni, Barentshafi, við strendur Kanada og víðar. Síðastliðin ár hefur uppistaða hráefnis verið iðnaðarrækja.
Dögun hefur alla tíð selt rækju á innanlandsmarkaði, en meginhluti framleiðslunnar fer þó til útflutnings. Mest er selt til Bretlands, Danmerkur og annarra Evrópulanda.
Dögun gerir út eitt skip, Dag SK 17. Dagur var keyptur í byrjun árs 2016 frá Írlandi. Skipið var smíðað á Spáni árið 1997. Rækjuveiðar voru gefnar frjálsar árið 2010 og aðeins gefin út heildarkvóti fyrir fiskveiðiárin 2010/2011 – 2013/2014. Rækjan var kvótasett aftur fiskveiðiárið 2014/2015.
Stærstu hluthafar félagsins eru Skiki ehf, Íslenska útflutningsmiðstöðin hf og Óttar Yngvason.