AFL Starfsgreinafélag
Um AFL Starfsgreinafélag
AFL Starfsgreinafélag er eitt fjölmennasta verkalýðsfélag landsins í dag.
AFL Starfsgreinafélag var stofnað 28. apríl 2007, með sameiningu þriggja félaga, AFLs Starfsgreinafélags Austurlands, Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar og Vökuls Stéttarfélags.
Frá stofnun hefur verið unnið mikið við að byggja upp innra starf félagsins, en við sameiningu félaga á stóru svæði tekur nokkurn tíma að stilla saman strengina og koma á tengingum manna á milli svo að félagsmennirnir upplifi sig sem hluta af stórri heild. Þetta hefur gengið vonum framar, enda býr félagið að góðri reynslu af fyrri sameiningum, þar sem Vökull Stéttarfélag og AFL Starfsgreinafélag Austurlands höfðu orðið til við sameiningar nokkrum árum áður, AFL á norður- og miðhluta Austurlands og Vökull á suðursvæðinu.
Félagssvæðið er víðfeðmt, en það nær frá Langanesbyggð í norðri til Skeiðarársands í suðri. Ríflega 9000 félagsmenn eru í félaginu í 4 deildum, verkamannadeild, sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og deild verslunar-og skrifstofufólks.
Félagið á aðild að Starfsgreinasambandinu, Sjómannasambandinu, Samiðn og Landssambandi íslenskra verslunarmanna, auk aðildar að Alþýðusambandi Íslands. Félagið tekur virkan þátt í starfi sambandanna og ýmissa annarra félaga og sjóða. Félagið á til dæmis stjórnarmenn í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandins, Sjómannasambandsins og Samiðnar, í stjórn Landsmenntar, Lífeyrissjóðsins Stapa, Sameinaða lífeyrissjóðsins, Þekkingarnets Austurlands og Vaxtarsamnings Austurlands. Félagið hafði auk þess forgöngu um stofnun Starfsendurhæfingar Austurlands, sem er að hefja starfsemi.
Þá hefur félagið tekið þátt í alþjóðlegu starfi, m.a. verið þátttakandi í Leonardo verkefni með IF Metall í Svíþjóð og átt þátt í stofnun ALCOA Workers Global Network, sem er óformlegur hópur verkalýðsfélaga sem í er launafólk, starfandi í ALCOA verksmiðjum.
Félagið heldur úti öflugri þjónustu fyrir félagsmenn. Í því sambandi má m.a. nefna að haldið er úti skrifstofum á öllum þéttbýlisstöðum á Austurlandi. Leitast er við að tryggja félagsmönnum sem bestan og greiðastan aðgang að upplýsingum og þjónustu á heimasíðunni.
Starfsmenn
Gunnar Smári Guðmundsson