Mynd af Borgarbyggð

Borgarbyggð



Sveitarfélögin Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur og Kolbeinsstaðahreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2006.

Sveitarfélagið er um 4.926 ferkílómetrar að stærð og íbúar eru rúmlega 3700. Mörk svæðisins eru við Skarðsheiði í suðri og Haffjarðará í vestri.

Innan Borgarbyggðar eru eftirtalin svæði: Kolbeinsstaðahreppur, Hraunhreppur, Álftaneshreppur, Borgarhreppur, Borgarnes, Norðurárdalur, Stafholtstungur, Þverárhlíð, Hvítársíða, Hálsasveit, Reykholtsdalur, Flókadalur, Lundarreykjadalur, Bæjarsveit og Andakíll.

Í Borgarbyggð er fjölbreytt mannlíf og atvinnulíf. Þetta er landbúnaðarhérað, en þar blómstrar einnig menntun og menning. Tveir háskólar eru á svæðinu, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands sem er með aðalstarfsstöð sína á Hvanneyri. Menntaskóli Borgarfjarðar er í Borgarnesi og í Borgarbyggð eru starfandi tveir grunnskólar: Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar. Grunnskóli Borgarfjarðar er með þrjár starfstöðvar, á Kleppjárnsreykjum, Varmalandi og á Hvanneyri. Leikskólar starfa einnig víða um svæðið.




Fjölbreytt tónlistarlíf er á svæðinu og má þar fyrst nefna starfsemi Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Tónlistarfélags Borgarfjarðar. Margir kórar, minni sönghópar og hljómsveitir eru starfandi í Borgarbyggð og má sem dæmi nefna Freyjukórinn, Samkór Mýramanna, Karlakórinn Söngbræður, og kirkjukóra.
Ýmsir klúbbar og félög eru starfandi á svæðinu og má þar nefna starfsemi kvenfélaga, Lionsklúbba, Kiwanis- og Rotaryklúbba o.fl.



Leiklist blómstrar undir merkjum ungmennafélaganna og hafa leiksýningar verið færðar upp í Logalandi í Reykholtsdal, Brún í Bæjarsveit og Lyngbrekku á Mýrum svo nokkuð sé nefnt.



Safnastarfsemi er öflug í héraðinu, í Safnahúsinu í Borgarnesi og Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Ýmsar sýningar og setur má einnig nefna s.s.starfsemi Snorrastofu í Reykholti og Samgöngusafn Fornbílafélags Borgarfjarðar, Landnámssetrið og Edduveröld í Borgarnesi, Veiðiminjasafn í Ferjukoti er einnig gaman að heimsækja svo og Ljómalind í Borgarnesi og Ullarselið á Hvanneyri þar sem rammíslenskt handverk er í hávegum haft.



Starfsmenn

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Sveitarstjóri
sveitastjori@borgarbyggd.is

Eiríkur Ólafsson

Fjármálastjóri
eirikur@borgarbyggd.is
c